Vefsíðan hefur lítinn stuðning frá þessum vafra, Við mælum með að skipta yfir í Edge, Chrome, Safari eða Firefox.

Karfa

Karfan þín er tóm

Halda áfram að versla

Saga spíranna

Neysla baunaspíra á sér langa sögu en fornar heimildir leiða í ljós að baunaspírur voru orðnar ómissandi hluti af daglegu fæði Kínverja um 3000 fyrir okkar tímatal. Í ævagömlum kínverskum lækningabókum er að finna skráðar heimildir um lækningamátt spíra. Þær eru sagðar vinna gegn ýmsum kvillum, s.s. uppþembu, vöðvakrampa, meltingartruflunum, veikleika í lungum og truflun í skyntaugum. Þar segir ennfremur að spírur dragi úr bólgum, virki hægðalosandi, vinni gegn gigt, gefi orku og leiði almennt til betri heilsu. Enn þann dag í dag eru spírur daglega á borðum Kínverja og annarra Asíubúa.

Í fjallahéruðum í Asíu, þar sem vetur eru langir og kaldir og ferskt hráefni af skornum skammti hluta úr árinu, hafa íbúar treyst á spírur sem sinn helsta orku-, vítamín- og ensímgjafa.

Heilsudrykkur á 18. öld

Á Vesturlöndum var það breski skipstjórinn James Cook, uppi á 18 öld, sem einna fyrstur komst að raun um mikilvægi spíra sem C-vítamíngjafa. Cook hugkvæmdist að sjóða baunaspírur við mjög lágan hita í langan tíma og útbúa þannig heilsudrykk fyrir áhöfnina til varnar skyrbjúg, sem einkum herjaði á sjómenn. Cook missti engan mann úr áhöfn á næstu árum, á meðan aðrir skipherrar misstu um helming áhafna sinna úr skyrbjúg. Í síðari heimsstyrjöldinni óttaðist ríkisstjórn Bandaríkjanna með auknum vöruskorti að ekki yrði unnt að sjá landsmönnum fyrir nægjanlegri próteinríkri fæðu úr dýraríkinu.

Samkvæmt ráðleggingum næringardeildar Cornell-háskóla var spírað fæði einna helst talið geta mætt mögulegum próteinskorti úr afurðum dýra. Í kjölfarið hrinti Bandaríkjastjórn af stað herferð sem fólst í því að kynna spírað fæði fyrir bandarísku þjóðinni. Bækur um næringarinnihald spíra og matreiðslubækur með áherslu á spírað fæði voru gefnar út og þeim dreift um öll Bandaríkin á kostnað ríkisins. Þegar til kom varð þó ekki skortur á dýrapróteini í landinu eins og óttast hafði verið og spírur féllu í gleymskunnar dá næstu áratugi.

Aftur fram á sjónarsviðið

Um 1970 komu spírur aftur fram á sjónarsviðið. Upp frá því, með aukinni vitund almennings um næringarinnihald spíra og eiginleika þeirra til heilunar og heilbrigðis, jókst neysla spíra hægt og bítandi og eru þær nú mikilvægur þáttur í mataræði þjóða um allan heim